Héraðsnefnd Árnesinga bs er byggðasamlag sveitafélaganna átta í Árnessýslu. Sveitarfélögin reka eftirtaldar stofnanir: Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga, Héraðsskjalasafn Árnesinga, Tónlistarskóla Árnesinga, Brunavarnir Árnessýslu og Almannavarnir.

Hér er að finna ýmsar upplýsingar um stofnanirnar, s.s. megin hlutverk, heimilisfang, síma, heimasíður, stjórnarmenn, varamenn, stjórnendur, ársskýrslur og stutt ágrip af sögu þeirra. Ársreiningar stofnananna eru hluti af samstæðureikningi Héraðsnefndar Árnesinga bs og eru birtir á aðalsíðu.

Byggðasafn Árnesinga

Byggðasafn Árnesinga er í Húsinu á Eyrarbakka. Fyrstu tillögur að stofnun byggðasafns komu fram á sýslufundi Árnesinga árið 1942. Árið 1952 setti Sýslunefndin á stofn nefnd til að hafa forgöngu um stofnun Byggðasafns Árnesinga. Árið 1954 var Skúli Helgason frá Svínavatni (1916-2002) fenginn til starfa og sumrin 1954 og 1955 fór Skúli um sýsluna og meðal brottfluttra Árnesinga í Reykjavík og safnaði munum.

Safnið var opnað 5. júlí 1964 að Tryggvagötu 23, Selfossi. Sýningunni á Selfossi var lokað 1994 og húsið selt 1996.

Á grunnsýningu Byggðasafns Árnesinga er Húsið og merk saga þess í forgrunni. Jafnframt eru til sýnis valdir þættir úr sögu héraðsins, eins og verslun, textíll, kirkjumunir og náttúran. Sérsýningar af ýmsu tagi eru jafnframt settar upp í borðstofu Hússins og Húsið opið fyrir tónleika og ýmsa menningarviðburði.

Haustið 1992 var gert samkomulag um Húsið á Eyrarbakka sem fól í sér að Ríkissjóður keypti Húsið, Þjóðminjasafn tók við því og hafði umsjón með viðgerðum árin 1993 til 1996. Byggðasafni Árnesinga var síðan falið það hlutverk að reka Húsið og hýsa þar sýningahald. Vorið 1993 voru gerðar tillögur að grunnsýningu í Húsinu og var unnið eftir þeim við uppsetningu safnsins. Byggðasafn Árnesinga opnaði starfsemi sína í Húsinu 3. ágúst 1995.

Þann 1. mars 2001 tók Byggðasafn Árnesinga við rekstri Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka skv. þjónustusamningi við Sveitarfélagið Árborg. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er að Túngötu 59 á Eyrarbakka.

Skrifstofa Byggðasafns Árnesinga er í þjónustuhúsi að Hafnarbrú 3 á Eyrarbakka sem rúmar allt innra starf safnanna. Fyrir bygginguna fékk safnið Íslensku safnaverðlaunin árið 2002.

Stöðug söfnun er við Byggðasafn Árnesinga og það varðveitir jafnframt muni og ljósmyndir Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka.Langstærsti hluti safnkosts er úr Árnessýslu. Sömuleiðis er Byggðasafn Árnesinga í fararbroddi þeirra safna á Íslandi sem fást við samtímasöfnun eftir SAMDOK aðferðinni þar sem áhersla er lögð á skráningu og ljósmyndun á vettvangi.

Söfnunar- og starfssvæði Byggðasafns Árnesinga er Árnessýsla og er Héraðsnefnd Árnesinga bs eigandi safnsins.

Byggðasafnið starfar í samræmi við Safnalög nr. 141/2011. Safnstjóri frá 1993 er Lýður Pálsson sagnfræðingur.


Heimilisfang

Byggðasafn Árnesinga
Húsinu, Eyrarbakka (Eyrargötu 50)
820 Eyrarbakka

Opnunartími

Frá 1. maí til 30. sept. alla daga frá 11:00 til 18:00
Eftir samkomulagi á öðrum tímum

Símanúmer

483 1082
483 1504

Stjórn og stjórnendur Byggðasafns Árnesinga

Stjórn Byggðasafns Árnesinga er skipað af Héraðsnefnd. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Byggðasafns Árnesinga

Hér eru ársskýrslur Byggðasafns Árnesinga og Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka. Eldri skýrslur er hægt að nálgast á vefsíðu Byggðasafnsins.

Saga Byggðasafns Árnesinga

Byggðasafn Árnesinga er í Húsinu á Eyrarbakka. Fyrstu tillögur að stofnun byggðasafns komu fram á sýslufundi Árnesinga árið 1942. Árið 1952 setti Sýslunefndin á stofn nefnd til að hafa forgöngu um stofnun Byggðasafns Árnesinga. Árið 1954 var Skúli Helgason frá Svínavatni (1916-2002) fenginn til starfa og sumrin 1954 og 1955 fór Skúli um sýsluna og meðal brottfluttra Árnesinga í Reykjavík og safnaði munum.

Safnið var opnað 5. júlí 1964 að Tryggvagötu 23, Selfossi. Uppsetning safnsins var í höndum Skúla Helgasonar og fleiri. Pétur M Sigurðsson var safnvörður frá 1973 til 1985. Árin 1986 og 1987 setti Hildur Hákonardóttir þáverandi safnvörður upp nýja grunnsýningu fyrir safnið. Sýningunni á Selfossi var lokað 1994 og húsið selt 1996.

Haustið 1992 var gert samkomulag um Húsið á Eyrarbakka sem fól í sér að Ríkissjóður keypti Húsið, Þjóðminjasafn tók við því og hafði umsjón með viðgerðum árin 1993 til 1996. Byggðasafni Árnesinga var síðan falið það hlutverk að reka Húsið og hýsa þar sýningahald. Vorið 1993 voru gerðar tillögur að grunnsýningu í Húsinu og var unnið eftir þeim við uppsetningu safnsins. Byggðasafn Árnesinga opnaði starfsemi sína í Húsinu 3. ágúst 1995. Saga þess og Eyrarbakkaverslunar er þar í fyrirrúmi en einnig eru nokkrir valdir þættir úr sögu alls héraðsins kynntir á sýningum. Fyrir norðan Húsið var endurbyggður Eggjaskúr opnaður haustið 2004 og er þar náttúrusýning tileinkuð fugla- og eggjasöfnun Peters Nielsen faktors um aldamótin 1900.

Þann 1. mars 2001 tók Byggðasafn Árnesinga við rekstri Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka skv. þjónustusamningi við Árborg. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er að Túngötu 59 á Eyrarbakka og stofnað af Sigurði Guðjónssyni á 6. áratug síðustu aldar. Hann bjargaði síðasta áraskipinu sem smíðað var á Eyrarbakka frá tortímingu og reisti safnhúsið árið 1970. Gaf hann Eyrarbakkahreppi safnið árið 1987 og sá Inga Lára Baldvinsdóttir um að skipuleggja grunnsýningu þar.

Skrifstofa Byggðasafns Árnesinga var í Húsinu á Eyrarbakka frá 1995 til 2002 en það ár tók safnið í notkun þjónustuhús að Hafnarbrú 3 á Eyrarbakka sem rúmar allt innra starf safnanna. Fyrir bygginguna fékk safnið Íslensku safnaverðlaunin árið 2002.

Stöðug söfnun er við Byggðasafn Árnesinga og það varðveitir jafnframt muni og ljósmyndir Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka. Í upphafi einskorðaðist söfnunin við muni úr gamla bændasamfélaginu með áherslu á búhætti, verslun og sjávarútveg fram að vélvæðingu hans. Áherslur hafa breyst og er meiri áhersla lögð á heimilishald fram til 1960. Langstærsti hluti safnkosts er úr Árnessýslu. Sömuleiðis er Byggðasafn Árnesinga í fararbroddi þeirra safna á Íslandi sem fást við samtímasöfnun eftir SAMDOK aðferðinni þar sem áhersla er lögð á skráningu og ljósmyndun á vettvangi.

Söfnunar- og starfssvæði Byggðasafns Árnesinga er Árnessýsla og er Héraðsnefnd Árnesinga eigandi safnsins. Öll átta sveitarfélög héraðsins eru í nefndinni. Safnstjóri frá 1993 er Lýður Pálsson sagnfræðingur.

Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga er menningarstofnun sem hefur það að meginmarkmiði að efla áhuga, þekkingu og skilning á myndlist með sýningum, fræðslu, umræðum og öðrum viðburðum sem nýtast Árnesingum og gestum þeirra til gagns og ánægju.

Málverkagjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og tveggja sona hennar Bjarna Markúsar og Lofts Jóhannessona til Árnesinga 19. október 1963 lagði grunninn að Listasafni Árnesinga. Þau héldu síðan áfram að gefa sýslunni listaverk til ársins 1986, alls sjötíu og fjögur verk, þar af eru nítján eftir listmálarann Ásgrím Jónsson. Elsta verkið er sjálfsmynd af Ásgrími frá því um 1900 en flest verkanna eru frá fyrri hluta 20. aldar eftir helstu listamenn þjóðarinnar frá þeim tíma.

Árið 1969 gaf Halldór Einarsson tréútskurðarmeistari frá Brandshúsum í Gaulverjabæ Árnesingum eigin verk og tíu þúsund dollara sem varð hvati þess að ráðist var í byggingu safnahúss á Selfossi sem var vígt árið 1974. Halldór, sem hafði búið og starfað í Chicago, gaf yfir eitt hundrað útskurðarverk úr tré, bæði hringsæ verk og lágmyndir, um fimmtíu höggmyndir úr marmara eða steini og nokkrar teikningar.

Aðrar stórar gjafir sem gefnar hafa verið af listamönnum eru fjörutíu og tvær teikningar eftir Baltasar Samper af bændum í Grímsnesi við upphaf árs 1966 og þrjátíu og sex fjölskrúðug pappírsverk frá árinu 2011 eftir indverska listamanninn Baniprosonno sem hefur nokkrum sinnum dvalið í Hveragerði. Að auki eru í safneigninni ríflega eitt hundrað verk eftir ýmsa listamenn.

Safnið stendur fyrir fjölbreyttum sýningum oft í samstarfi við önnur söfn eða menningarstofnanir og reglulega er rýnt í safneignina. Sýningunum er fylgt úr hlaði með margvíslegri dagskrá og útgáfu.

Héraðsnefnd Árnesinga bs eigandi safnsins. Safnstjóri er Inga Jónsdóttir.


Heimilisfang

Listasafn Árnesinga
Austurmörk 21
810 Hveragerði

Opnunartími

Sumar: 1. maí til 30. sept. alla daga frá 12:00 - 18:00
Vetur: 1. okt. til 30 apríl fim-sun frá 12:00 - 18:00

Símanúmer

483 1727

Stjórn og stjórnendur Listasafns Árnesinga

Stjórn Listasafns Árnesinga er skipað af Héraðsnefnd. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Listasafns Árnesinga

Hér eru ársskýrslur Listasafns Árnesinga. Eldri skýrslur er hægt að nálgast á vefsíðu Listasafnsins.

Fundargerðir stjórnar Listasafns Árnesinga

Hér eru fundargerðir stjórnar Listasafns Árnesinga. Fundargerðirnar gera almenningi kleift að fylgjast með þeim formlega vettvangi þar sem starfsemi og stefna safnsins er mótuð. Fundargerðirnar eru í tímaröð, yngstu fundargerðirnar eru efst.

Saga Listasafns Árnesinga

Þann 19. október 1963 gáfu frú Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar Loftur og Bjarni Markús Jóhannessynir Árnesingum stóra málverkagjöf sem lagði grunninn að Listasafni Árnesinga. Við það tækifæri mælti Bjarnveig meðal annars:

„Ég lít svo á að það sé mikils vert fyrir listmenningu þjóðarinnar að listasöfn séu staðsett sem víðast og vænti þess að íbúum hinna fögru sveita og þorpa austanfjalls verði það menningarauki að eignast þetta safn málverka sem er hið fyrsta staðsett utan Reykjavíkur. Og ekki síst vænti ég þess að skólar héraðsins kynni nemendum sínum verk þessara 17 listamanna.“

Og við annað tækifæri:

„Þessi málverk voru gefin af heilum hug og með þeirri ósk að gjöfin yrði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir uppvaxandi kynslóðir, en góð list, hvort sem hún heitir myndlist, tónlist eða um er að ræða aðrar listgreinar, veitir gleði og eykur þroska þeirra sem njóta. Því er það mikils virði að unga fólkið eigi þess kost að kynnast góðri list og ættu skólar að hafa slíkt í huga.“

Þau héldu síðan áfram að gefa sýslunni listaverk til ársins 1986, alls sjötíu og fjögur verk, þar af eru nítján eftir listmálarann Ásgrím Jónsson. Elsta verkið er sjálfsmynd af Ásgrími frá því um 1900 en flest verkanna eru frá fyrri hluta 20. aldar eftir helstu listamenn þjóðarinnar frá þeim tíma.

Árið 1969 gaf Halldór Einarsson tréútskurðarmeistari frá Brandshúsum í Gaulverjabæ Árnesingum eigin verk og tíu þúsund dollara sem varð hvati þess að ráðist var í byggingu safnahúss á Selfossi sem var vígt árið 1974. Halldór, sem hafði búið og starfað í Chicago, gaf yfir eitt hundrað útskurðarverk úr tré, bæði hringsæ verk og lágmyndir, um fimmtíu höggmyndir úr marmara eða steini og nokkrar teikningar.

Aðrar stórar gjafir sem gefnar hafa verið af listamönnum eru fjörutíu og tvær teikningar eftir Baltasar Samper af bændum í Grímsnesi við upphaf árs 1966 og þrjátíu og sex fjölskrúðug pappírsverk frá árinu 2011 eftir indverska listamanninn Baniprosonno sem hefur nokkrum sinnum dvalið í Hveragerði. Að auki eru í safneigninni ríflega eitt hundrað verk eftir ýmsa listamenn.

Safnstjóri er Inga Jónsdóttir listfræðingur.

Héraðsskjalasafn Árnesinga

Héraðsskjalasafn Árnesinga er skjalavörslustofnun í eigu og rekin af Héraðsnefnd Árnesinga bs.

Hlutverk Héraðsskjalasafns Árnesinga er í meginatriðum tvíþætt. Skjalasafnið á að varðveita skjöl sveitarfélaga sýslunnar, bæði hinna fornu hreppa, sem voru 18, og þeirra átta sveitarfélaga sem nú eru í Árnessýslu. Sveitarfélögum og undirstofnunum þeirra ber skylda til að afhenda skjalasafninu skjalasöfn sín. Héraðsskjalasafnið einnig hefur eftirlitsskyldu með skjalavörslu sveitarfélaganna og vinnur náið með starfsfólki sveitarfélagana að því að gera skjalavörslu þeirra öruggari, skilvirkari og ódýrari. Þetta er hluti af stjórnsýslulegu hlutverk skjalasafnsis. En skjalaverðir taka einnig ákvarðanir um aðgengi að skjölum í samræmi við lög, þ. á m. upplýsingalög nr. 140/2012, lög um persónuvernd nr. 77/2000 og lög um Þjóðskjalasafns Íslands nr. 66/1985.

Héraðsskjalasafninu ber að skrá eða tryggja skráningu á skjölum og gera þau aðgengileg almenningi og stjórnvöldum í samræmi við lög. Héraðsskjalasafnið hefur opinn lestrarsal þar sem hægt er að skoða skjölin.

Þá ber skjalasafninu að varðveita og efla þekkingu á sögu Árnessýslu. Skjalasöfn félaga, fyrirtækja og ekki síst einstaklinga varpa ljósi á ýmsa þætti í sögu sýslunnar. Skjalasafninu tekur við einkaskjalasöfnum. Þetta er hluti af hinu menningarlega hlutverk skjalasafnsins.

Á héraðsskjalasafninu eru nú rúmlega 1.000 hillumetrar af skjölum frá sveitarfélögum í sýslunni og undirstofnunum þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 300.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Afhendingarnar frá byrjun eru rúmlega 1.600 talsins. Héraðsskjalasafn Árnesinga geymir ómetanlegar heimildir um sögu héraðsins frá ofanverðri 19. öld og fram á þá 21.

Söfnunar- og starfssvæði Héraðsskjalasafns Árnesinga er Árnessýsla.

Héraðsskjalasafnið starfar í samræmi við lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985, reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994. Héraðsskjalavörður frá 2009 er Þorsteinn Tryggvi Másson sagnfræðingur.


Heimilisfang

Héraðsskjalasafn Árnesinga
Austurvegi 2
800 Selfoss

Opnunartími

Mánudaga 10:00 til 16:00
Þriðjudaga 10:00 til 16:00
Miðvikudaga lokað
Fimmtudaga 10:00 til 16:00
Föstudaga 10:00 til 16:00

Símanúmer

482 1259

Stjórn og stjórnendur Héraðsskjalasafns Árnesinga

Stjórn Héraðsskjalasafns Árnesinga er skipað af Héraðsnefnd. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Héraðsskjalasafns Árnesinga

Hér eru ársskýrslur Héraðsskjalasafns Árnesinga. Héraðsskjalaverðir eiga skv. 9. gr. reglugerðar um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994 að gefa þjóðskjalaverði og rekstaraðilum árlega skýrslu um það sem bæst hefur í héraðsskjalasafnið og um aðra markverða starfsemi þess. Eldri ársskýrslur er hægt að nálgast á vefsíðu skjalasafnsins myndasetur.is.

Saga Héraðsskjalasafns Árnesinga

Á aðalfundi sýslunefndar Árnessýslu 6. og 7. júní 1985 var stofnsamþykkt Héraðsskjalasafns Árnesinga samþykkt og síðan undirrituð af þjóðskjalaverði 15. nóvember 1985 sem telst formlegur stofndagur héraðsskjalasafnsins. Undirbúning að stofnun Héraðsskjalasafns Árnesinga má þó rekja aftur til vorsins 1982 þegar félag áhugamanna um héraðssögu Árnessýslu var stofnað en meginmarkmið félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni. Skjöl voru þegar farin að berast skjalasafninu og þá hafði Bæjar- og héraðsbókasafnið einnig tekið við fjölda skjalasafna.

Sumarið 1985 var Finnur Magnússon ráðinn til að fara um sýsluna til að safna skjölum, afla upplýsinga og kynna skjalasafnið. Árið 1986 var Inga Lára Baldvinsdóttir ráðin til að safna skjölum en Kristinn Júlíusson sá um móttöku skjala. Pétur M. Sigurðsson sá um reikningshald. Í lok árs 1987 var óskað eftir því að starfsemi safnsins yrði flutt í sýningarsal safnahússins við Tryggvagötu 23. Það gerðist á vormánuðum 1988. Erlingur Brynjólfsson gekk þá til liðs við skjalasafnið í hlutastöðu en Pétur og Kristinn hættu. Ekki var fastur starfsmaður við safnið á þessum tíma.

Vatnaskil urðu í rekstri skjalasafnsins árið 1990. Björn Pálsson sem á sínum tíma tók þátt í stofnun áhugamannafélagsins, auk þess að vera fyrsti formaður stjórnar skjalasafnsins eftir að það fékk starfsleyfi, var þá ráðinn í hálfa stöðu sem héraðsskjalavörður. Þann 8. september 1991, á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar, flutti skjalasafnið í gamla kaupfélagshúsið sem nú hýsir bæði Bókasafn Árborgar og Ráðhús Sveitarfélagsins Árborgar. Núverandi héraðsskjalavörður er Þorsteinn Tryggvi Másson.

Hlutverk Héraðsskjalasafns Árnesinga er í meginatriðum tvíþætt. Skjalasafninu ber að varðveita skjöl sveitarfélaga sýslunnar, bæði hinna fornu hreppa, sem voru 18, og þeirra átta sveitarfélaga sem nú eru til staðar. En sveitarfélögum og undirstofnunum þeirra ber skylda til að afhenda safninu skjalasöfn sín. Skjalasafnið hefur eftirlitsskyldu gagnvart sveitarfélögunum og vinnur náið með starfsfólki sveitarfélagana að því að gera skjalavörslu þeirra öruggari, skilvirkari og ódýrari. Þetta er stjórnsýslulegt hlutverk skjalasafnsis. Þá ber skjalasafninu að varðveita og efla þekkingu á sögu Árnessýslu. Skjalasöfn félaga, fyrirtækja og ekki síst einstaklinga varpa ljósi á ýmsa þætti í sögu sýslunnar. Skjalasafninu tekur við einkaskjalasöfnum, skráir og tryggir aðgengi almennings að skjalasöfnunum. Þetta er hið menningarlega hlutverk skjalasafnsins.

Á héraðsskjalasafninu eru nú rúmlega 1.000 hillumetrar af skjölum frá sveitarfélögum í sýslunni og undirstofnunum þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 150.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Afhendingarnar frá byrjun eru tæplega 1.600 talsins. Héraðsskjalasafn Árnesinga geymir ómetanlegar heimildir um sögu héraðsins frá ofanverðri 19. öld og fram á þá 21.

Tónlistarskóli Árnesinga

Skólinn starfar eftir ákvæðum gildandi laga og reglugerða um tónlistarskóla og tónlistarfræðslu auk gildandi kjarasamnings. (Úr reglugerð fyrir Tónlistarskóla Árnesinga). Skólinn var stofnaður árið 1955 og hét þá Tónlistarskóli Árnessýslu. Þá voru í skólanum 50 nemendur frá 9 sveitarfélögum í Árnessýslu. Skólinn hefur síðan vaxið og dafnað og fer kennsla nú fram á vegum tónlistarskólans í flestum grunnskólum og þéttbýlisstöðum í sýslunni. Kennarar skólans eru um 30 talsins í misstórum stöðugildum. Nemendur skólans eru um 500 talsins auk barna í forskóla 2. bekkjar.


Heimilisfang

Tónlistarskóli Árnesinga
Eyravegi 9
800 Selfoss

Símanúmer

482 1717

Stjórn og stjórnendur Tónlistarskóla Árnesinga

Stjórn Tónlistarskóla Árnesinga er skipað af Héraðsnefnd. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Tónlistarskóla Árnesinga

Hér eru ársskýrslur Tónlistarskóla Árnesinga. Eldri ársskýrslur er hægt að nálgast á vefsíðu tónlistarskólans.

Saga Tónlistarskóla Árnesinga

Tónlistarskóli Árnesinga var stofnaður árið 1955 að frumkvæði sr. Sigurðar Pálssonar fyrrum vígslubiskups og Rotaryklúbbi Selfoss. Hafist var handa með kosningu undirbúningsnefndar sem setti allt í gang. Guðmundur Gilsson síðar tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, var að ljúka tónlistarnámi í Þýskalandi og féllst á að taka að sér starf organista við Selfosskikju og skólastjórn tónlistarskólans. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fjótlega fór nemendum að fjölga og áður en langt um leið var orðin húsnæðisekla. Nemendur urðu strax um 50 talsins en það kom að þeim tímapunkti að þeim fjölgaði árið 1970 um 60. Voru þá góð ráð dýr, því allar rekstraráætlanir gengu úr skoðum. En allt leystist þetta farsællega fyrir tilstilli framsýnna manna.

Mikið og gott starf hefur verið unnið af þeim sem hafa helgað krafta sína skólanum. Í dag eru það öll sveitarfélög Árnessýslu sem standa að rekstri skólans. Skólastjóri er Róbert A. Darling, aðstoðarskólastjóri er Helga Sighvatsdóttir og deildarstjórar eru Jóhann Stefánsson, Miklós Dalmay, Edit Anna Monár og María Weiss.

Það má með sanni segja að Tónlistarskóli Árnesinga sé stór og umsvifamikill, sem af sjálfu leiðir þar sem starfsemin fer fram svo víða sem raun ber vitni. Kennt er á mörgum stöðum víðsvegar um sýsluna, öllum kaupstöðum, kauptúnum og uppsveitum. Fjöldi nemenda er um 500. Um 30 kennarar starfa að jafnaði við skólann.

Starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga hefur verið blómleg í gegnum tíðina. Fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir, bæði smáir tónfundir í einstaka deildum og svo stórir sameigilegir tónleikar með öllum deildum. Samskipti hafa verið góð við aðra tónlistarskóla, bæði hér heima og á öðrum Norðurlöndum. Hljómsveitir skólans hafa ferðast bæði innan lands og utan. Strengjasveit skólans hefur m.a. farið til Svíþjóðar til að endurgjalda heimsókn sænskrar strengjasveitar og einnig til Austurríkis og blásarasveit skólans hefur farið til Króatíu.

Margir valinkunnir tónlistarmenn hafa ljáð skólanum krafta sína á liðnum árum og nægir þar að nefna menn eins og Jónas Ingimundarson og Glúm Gylfason að öllum hinum ólöstuðum. Ekki er útlit fyrir að áhugi fólks fyrir tónlistarnámi fari dvínandi á næstu árum, heldur þvert á móti og það er verðugt verkefni að styrkja og efla tónmennt í landinu til sjávar og sveita. Tónlistarskóli Árnesinga mun leggja sitt af mörkum í framtíðinni.

Brunavarnir Árnessýslu

Tilgangur Brunavarna Árnessýslu er að koma á sem fullkomnustum brunavörnum á samningssvæðinu, annast þær og kosta. Í því skyni skulu þær m.a. reka slökkvilið og búa það öllum nauðsynlegum tækjakosti, byggja slökkvistöð á Selfossi og koma á fullkomnu eldvarnaeftirliti á félagssvæðinu. Unnið skal að því, með upplýsingastarfsemi og fræðslu, að fólk kunni sem best skil á því, hvenær viðbrögð séu vænlegust til bjargar, ef eldsvoða ber að höndum. Í því sambandi skal að því stefnt, að handslökkvitæki af viðurkenndri gerð séu á hverju heimili. Varðandi sveitahreppana skal félagið m.a. vinna að eftirfarandi, eftir því sem frekast er unnt:

1. Að samin verði fyrir hvern hrepp ítarleg skýrsla um byggingar, vegi, vatnstökuskilyrði og annað, er máli skiptir um aðstöðu hvers býlis og byggingar. Skal eintak af spjaldskrá þessari geymt í slökkvibíl.

2. Að í sveitahreppunum verði komið upp þjálfuðum hjálparsveitum, 5-7 mönnum í hverjum hreppi. Menn þessir skulu vinna með Slökkviliði Selfoss. Yfirmaður og varamaður hans skal ákveðinn fyrir hverja hjálparsveit, og skal sá yfirmaður stjórna hjálparsveit hreppsins sem og öðrum hjálparmannskap, ef eldsvoða ber að höndum, uns slökkviliðsstjóri Selfoss kemur á staðinn.

3. Að á hverju sveitabýli sé til stigi, sem nái til björgunar frá efstu hæðum húsa.

4. Að til séu líflínur ásamt gluggakrókum þar sem hús eru tvær hæðir eða meira.

Brunavarnir Árnessýslu er með höfuðstöðvar á Selfossi og sjö aðrar slökkvistöðvar víðsvegar um sýsluna. Liðið telur um 120 hlutastarfandi slökkviliðsmenn.Slökkviliðsstjóri er Pétur Pétursson, Sverrir Haukur Grönli er varaslökkviliðsstjóri.


Heimilisfang

Brunavarnir Árnessýslu
Árvegi 1
800 Selfoss

Símanúmer

4 800 900

Stjórn og stjórnendur Brunavarna Árnessýslu

Stjórn Brunavarna Árnessýslu er skipað af Héraðsnefnd. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Brunavarna Árnessýslu

Hér eru ársskýrslur Brunavarna Árnessýslu.

Saga Brunavarna Árnessýslu

Hér kemur bráðskemmtilegur texti um sögu Brunavarna Árnessýslu.

Almannavarnir Árnessýslu

Almannavarnir Árnessýslu starfa skv. lögum um almannavarnir nr. 82/2008 auk ýmissa reglugerða og laga, sjá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Hér er að finna upplýsingar um stjórn, stjórnendur Almannavarna og ársskýrslur.


Heimilisfang

Almannavarnir Árnessýslu
Árvegi 1
800 Selfoss

Stjórn Almannavarna Árnessýslu

Starfandi framkvæmdastjórnar sveitarfélaganna skipa stjórn nema annað sé ákveðið. Stjórnina skipa:

Ársskýrslur Almannavarna Árnessýslu

Hér eru ársskýrslur Almannavarna Árnessýslu.

Saga Almannavarna Árnessýslu

Hér kemur texti um Almannavarnir.